Landsbankinn hf. og slitastjórn LBI hf. (gamla Landsbankans) hafa komist að samkomulagi um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009, en eftirstöðvar þeirra eru nú að jafnvirði um 226 milljarðar króna. Af hálfu slitastjórnar LBI hf. er gerður fyrirvari um að tilteknar undanþágur fáist í samræmi við lög um gjaldeyrismál. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Lokagreiðsla verður innt af hendi í október 2026 í stað október 2018. Endurgreiðslur verða á tveggja ára fresti og dreifast nokkuð jafnt. Landsbankinn hefur heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu upp án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu.

Vaxtakjör verða óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR vexti. Eftir það fer vaxtaálagið stighækkandi og verður 3,5% vegna gjalddaga 2020 og að lokum 4,05% vegna lokagjalddagans árið 2026. Hver gjalddagi á tímabilinu frá 2020 til 2026 er að jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna.

Skuldabréfin voru upphaflega gefin út á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna. Fjárhæðin var ákveðin sem mismunur á virði eigna og skulda sem fluttar voru yfir til Landsbankans.