Guðmundur Þóroddsson hefur lengi leitað nýrra tækifæra í beislun jarðvarma um allan heim. Frá 1999 til 2007 var hann forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, en fór svo í leyfi til að taka við starfi forstjóra Reykjavík Energy Invest. Á stuttum líftíma sínum dróst það fyrirtæki inn í miklar deilur í reykvískum stjórnmálum og samfélaginu öllu.

Skömmu fyrir fjármálahrunið tók Guðmundur síðan þátt í stofnun orkufyrirtækisins Reykjavík Geothermal ásamt fyrrverandi starfsmönnum REI. Reykjavík Geothermal vinnur nú að jarð­ varmaverkefnum í Eþíópíu, Mexíkó og Karíbahafinu. Á dögunum var til að mynda tilkynnt um samninga um 500 megavatta virkjun í Eþíópíu.

Drógu út eiturlyf og byssur

Spurður um áhugaverðar sögur af viðskiptaferðum Guðmundar í fjarlægum löndum rifjar hann upp atvik sem átti sér stað í Kenýa.

„Við vorum þar á leiðinni út á flugvöll eftir langa og stranga fundarsetu í nokkra daga, og lentum þá í því að það kom bíll á móti okkur og hreinlega keyrir á bílinn sem við vorum í. Á fullri ferð, á yfir 100 kílómetra hraða. Við vorum í ágætum bíl, en bíllinn sem keyrði á okkur var ekki eins sterkbyggður og fór allur í mask. Sætin losnuðu og þetta leit mjög illa út,“ segir Guðmundur.

Hann segir að menn hafi stigið út úr bílum og blætt hafi úr öllum vitum á þeim.

„Okkur leist nú ekkert á þetta. Það fyrsta sem þeir gerðu var að þeir köfuðu undir sætin á bílnum sem þeir voru í og drógu þaðan út eiturlyf og byssur, hlupu með þetta út í skóg og hurfu svo út í nóttina. Þarna stóð bara flakið eftir og við. Við vorum svo sem ekkert betri, því við vorum á hraðleið í flug. Þannig að við hringdum bara í samstarfsaðila okkar þarna, sem tók okkur og við stungum af út á flugvöll. Það var bara bílstjórinn okkar einn með tvö flök sem beið eftir lögreglunni.“

Guðmundur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .