„Áður en lengra er haldið vil ég nýta tækifærið og þakka landinu þínu fyrir að vera fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði okkar árið 1991. Við munum alltaf muna eftir því,“ segir Laimdota Straujuma, forsætisráðherra Lettlands. Straujuma var hér á landi í síðustu viku í tilefni af ráðstefnunni Northern Future Forum í síðustu viku. Á ráðstefnunni funduðu forsætisráðherra Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna með ríflega 80 sérfræðingum frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Þar var m.a. rætt um vöxt skapandi greina og nýsköpun í opinberum rekstri í þeim tilgangi að auka gæði opinberrar þjónustu.

„Fyrir mitt leyti, og ég tel að það gildi líka um hina forsætisráðherrana, var það sérstaklega mikilvægt að fá að ræða við sérfræðinga um þessi málefni,“ segir Straujuma um ráðstefnuna. „Hér fengum við tækifæri til að ræða við fólk sem tekur frumkvæði og er að vinna að mjög áhugaverðum verkefnum. Núna er aðalspurningin hvernig við innleiðum þær ágætu hugmyndir sem spruttu upp á ráð­stefnunni.“

Íslendingar velkomnir til Lettlands

Þetta er fyrsta heimsókn Laimdota Straujuma til Íslands en hún tók við embætti forsætisráðherra Lettlands í janúar á síðasta ári. Hún fer fögrum orðum um land og þjóð og sér mikil tækifæri í frekari samskiptum og samvinnu Íslands og Lettlands. „Kannast þú við fyrirtæki sem heitir 66° Norður? Vissir þú að meira en 95% af framleiðslu þeirra eiga sér stað í Lettlandi? Þrátt fyrir fjarlægðina á milli okkar þá höfum við samt viðskiptasamband. Sjávarútvegur skiptir okkur miklu máli líkt og raunin er hjá ykkur. Vonandi getum við unnið meira saman á þeim vettvangi í framtíðinni. Ég býð ykkur velkomin til Lettlands til að sjá hvað við höfum upp á að bjóða,“ segir hún.

Samkvæmt upplýsingum frá lettneskum yfirvöldum nam velta á viðskiptum á milli Lettlands og Íslands 17,67 milljónum evra á síðasta ári eða tæpum 2,5 milljörðum króna. Ísland er í 55 sæti yfir stærstu við- skiptalönd Lettlands miðað við veltu en stærstur hluti af útflutningi Lettlands til Íslands eru timburefni (44,18%) og fatnaður (25,97%). Íslendingar flytja hlutfallslega mest af sjávarafurðum og landbúnaðarvörum (86%) til Lettlands en þar á eftir koma plastvörur (9,74%). Um 73 fyrirtæki eru skráð í Lettlandi sem tengjast viðskiptum við Ísland.

Nánar er rætt við Straujuma í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .