Svo virðist sem dregið hafi úr lausafjárþurrð á fjármálamörkuðum að undanförnu og hafa vextir á millibankamarkaði ekki verið lægri frá því að lausafjárkreppan hófst í fyrrasumar, að því er fram kemur í Daily Telegraph.

Þriggja mánaða Libor-vextir á sterlingspundi á millibankamarkaði féllu í upphafi ársins í 5,89% -- 39 punktum hærri en stýrivextir Englandsbanka -- en slíkur munur hefur ekki sést frá því 9. ágúst síðastliðinn. Hæst stóðu vextirnir í septembermánuði, þegar þriggja mánaða Libor-vextir fóru í 6,9% -- 115 punktum yfir stýrivexti Englandsbanka. Minnkandi vaxtamunur gefur til kynna að fjármálastofnanir séu reiðubúnari en áður til að veita hver annarri skammtímafjármögnun.

Fjármagnskostnaður á skammtímalánum hefur lækkað skarpt frá því að helstu seðlabankar heimsins -- í Bandaríkjunum, Bretlandi, Evrusvæðinu, Sviss og Kanada -- réðust í samhæfðar aðgerðir í desember, með því að veita fjármálastofnunum aðgang að ódýru lánsfé til að reyna að stemma stigu við vaxandi lausafjárþurrð á mörkuðum.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir John Wraith, sérfræðingi hjá Royal Bank of Scotland, að þessi þróun eigi ekki að koma á óvart í ljósi þeirra umfangsmiklu aðgerða sem seðlabankarnir gripu til. "Það var óumflýjanlegt að vextir á millibankamarkaði færu lækkandi," segir Wraith.

Jafnframt kemur fram í frétt Daily Telegraph að vextir á lánum til eins dags hafi lækkað mikið og standi nú í 5,59% -- aðeins um níu punktum hærri en stýrivextir. Þetta er talið gefa til kynna að fjármálastofnunum reynist nú auðveldara en áður að sækja sér lánsfé á fjármagnsmörkuðum.

Sumir sérfræðingar telja hins vegar að þetta sé aðeins skammgóður vermir og benda á að björgunaraðgerðir peningamálayfirvalda -- sem hafa orsakað vaxtalækkanir á millibankamarkaði -- séu ekki til þess fallnar að ráðast að raunverulegri rót vandans. Fram kemur í greiningu fjárfestingarbankans Dresdner Kleinwort að fjármagnsinnspýting seðlabankanna hafi ekki tekist á við undirliggjandi vandamál lausafjárkreppunnar. "Við væntum þess að ástandið muni versna á ný," segir í greiningu bankans.