Rétt tæplega 63% þeirra bóka sem gefnar eru út á Íslandi og getið er um í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda eru prentaðar á Íslandi.

Heildarfjöldi prentaðra bókatitla er 704 í Bókatíðindunum í ár en var 675 árið 2012. Fjöldi titla sem prentaðir eru innanlands eru 441 og fjölgar um 15 frá fyrra ári. Sem hlutfall af heild dregst það þó lítillega saman milli ára, er 62,6% í ár en árið 2012 var hlutfallið 63,1%.

Skoðað var hvert hlutfall prentunar innanlands og erlendis er eftir flokkum. Þar kemur fram að stór hluti barnabóka er prentaður erlendis en það er m.a. vegna þess að samprent er algengt í útgáfu barnabóka þar sem prentað er sameiginlega fyrir mörg lönd.

  • Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 204; 128 (63%) eru prentaðar á Íslandi og 76 (37%) prentaðar erlendis.
  • Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 196; 180 (92%) prentuð á Íslandi og 16 (8%) prentuð erlendis.
  • Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 129; 73 (57%) prentaðar á Íslandi og 56 (43%) prentaðar erlendis.
  • Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 175; 60 (34%) prentaðar á Íslandi og 115 (66%) prentaðar erlendis.