Ráðstefnumarkaðurinn er að taka við sér að nýju eftir að stjórnvöld tilkynntu um allsherjar afléttingar samkomutakmarkana fyrir rúmri viku. Aðilar á markaðnum segjast finna fyrir uppsafnaðri þörf en einnig sé verið að koma viðburðum sem frestuðust í faraldrinum aftur á dagskrá.

Alls er búið að staðfesta 42 alþjóðlegar ráðstefnur sem haldnar verða á Íslandi í ár. Til samanburðar voru 34 alþjóðlegar ráðstefnur haldnar hér á landi árið 2019. Meðal stærstu ráðstefna í ár eru 900 manna norræn lögfræðiráðstefna í ágúst og 800 manna ráðstefna norrænu menntasamtakanna NERA í júní.

„Það er að koma líf í ráðstefnu- og viðburðamarkaðinn á ný. Við höfum unnið ötult að því í Covid að laða ráðstefnur áfram til landsins svo að það yrði ekki gat á dagatalinu þegar viðburðahald færi á fullt aftur,“ segir Sigurjóna Sverrisdóttir, verkefnastjóri Meet in Reykjavík (MiR) hjá Íslandsstofu. Hún bendir á það geti tekið allt frá nokkra mánuði upp í 5-6 ár að sækja um flottar ráðstefnur og því sé ferlið mikið langhlaup.

„Samkvæmt samtölum við samstarfsfyrirtæki Meet in Reykjavík fer fyrirspurnum fjölgandi eftir að landamærin opnuðust og við heyrum það líka í samtölum við aðra áfangastaði að viðskiptaferðamenn eru tilbúnir að ferðast aftur og ráðstefnuhald að taka við sér. Samkvæmt öllum rannsóknum og skýrslum bendir allt til þess að það taki 2-3 ár að markaðurinn nái sér eftir Covid-faraldurinn. Útlitið fyrir árið í ár er í raun óvenjugott í ljósi þessa.“

Líkt og með almennt viðburðahald var allflestum ráðstefnum frestað eða þær afbókaðar árið 2020 vegna faraldursins. Þó að áhrifa farsóttarinnar hafi enn gætt á síðasta ári náðist að halda hér þrjár stórar alþjóðlegar ráðstefnur; heimsþing kvenleiðtoga, árlegu Arctic Circle-ráðstefnuna og heimsþing jarðvarma. Síðastnefnda ráðstefnan er haldin á fimm ára fresti og fór fram í fyrsta skipti á Íslandi í fyrra. Vegna aðstæðna áttu aðstandendur heimsþings jarðvarma von á 500-600 gestum en þegar upp var staðið sóttu 1.150 gestir ráðstefnuna, sem kann að gefa merki um vilja fólks til að hittast.

Blendingsfyrirkomulag dýrt

Í faraldrinum gripu margir viðburðahaldarar til þeirra ráða að halda ráðstefnur á staðnum ásamt því að streyma þeim á netinu. Spurð hvort þetta fyrirkomulag verði ráðandi í framtíðinni segir Hildur Björg Bæringsdóttir, verkefnastjóri MiR hjá Íslandsstofu, að líklega verði minna um það en margir eigi von á.

„Þetta blendingsfyrirkomulag er svolítið eins og að halda tvær ráðstefnur. Þetta er mjög kostnaðarsamt. Það sem maður heyrir frá aðilum innan geirans er að það virðist vera einhugur um að fólk vilji hittast á staðnum. Þar gerast töfrarnir,“ segir Hildur. Hún bætir þó við að eflaust verði meira um stafrænt efni, sem henti vel fyrir ákveðin efnistök.

Eykur virði háskólanna

Löngum hefur verið rætt um verðmæti ráðstefnugesta og viðskiptaferðmanna, sem eru eyðslusamari en hinn hefðbundni ferðamaður að sögn Sigurjónu. Ekki síður liggi verðmæti í nýsköpun og þekkingu sem verður eftir á áfangastöðum.

Hún bendir á að þær borgir sem hafa náð hvað lengst á ráðstefnumarkaðnum séu flestar með sterka háskóla sem skapa tilefni til að halda viðburði. Að sama skapi auka ráðstefnuborgir virði háskólanna sjálfra með að laða meiri þekkingu, flottari kennara og gefur nemendum tækifæri á að sækja viðburði.

Sigurjóna segir mikilvægt að kortleggja styrkleika áfangastaðarins þannig að markvisst sé sótt um ráðstefnur sem líklegar eru til að koma til landsins. Hún nefnir sem dæmi að Íslendingar séu sterkir á sviði jarðvarma, sjávarútvegs, gervigreindar, róbota, jafnréttismála og sjálfbærni. Sigurjóna segir einnig að stóru rafíþróttaviðburðirnir tveir sem haldnir voru í Laugardalshöllinni á síðasta ári hafi verið kærkomnir og tilefni sé til að kanna frekari sókn á þeim markaði.

Nánar er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Sagt er frá endurkomu kaupréttarkerfa meðal félaga í Kauphöllinni.
  • Skiptar skoðanir eru um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um bann við olíuleit.
  • Viðtal við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra Ferðaklasans sem verður meðal ræðukvenna á UAK deginum um helgina.
  • Fjallað um metafkomu í Kauphöllinni á síðasta ári.
  • Fjallað um þær flækjur sem sterk staða Rússlands á orkumarkaði skapar undir viðskiptaþvingunum.
  • Farið er yfir ástæður mikillar lækkunar Arion banka á verðtryggðum útlánavöxtum
  • Kristín Björg Árnadóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Orkunnar, ræðir nýja starfið.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem bendir á tvískinnung í umræðu um arðsemi fjárfestinga.
  • Óðinn skrifar um gjaldþrot Vaðlaheiðarganga.
  • Frjáls verslun fylgir Viðskiptablaðinu en þar er fjallað um afkomu um 200 af arðbærustu fyrirtækjum landsins, rætt við Heiðar Guðjónsson, forstjóra Sýnar, Sigurð Pálsson, forstjóra Byko auk þess að fjöldi hagfræðinga fer yfir stöðuna í efnahagsmálum.