Samkeppniseftirlitið hefur sett skilyrði við kaup framtakssjóðsins TFII slhf. á 50% hlut í Hringrás ehf. og HP gámum ehf. Ástæðan er hve sömu lífeyrissjóðirnir eiga stóran hlut í TFII sem og framtakssjóðnum SÍA III, sem á meirihluta í samkeppnisaðilanum Terra umhverfisþjónustu.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að hætta sé að samruninn hafi skaðlega áhrif á samkeppni og því sé nauðsynlegt að setja samrunanum skilyrði. Þó er bent á í ákvörðuninni að enginn aðili fari með yfir 10% hlut í báðum framtakssjóðum og TFII og SÍA III sé ekki stýrt af sömu aðilum. TFII er í stýringu hjá Íslenskum verðbréfum en SÍA III hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka.

Sjá einnig: TFII kaupir í Hringrás og HP gámum

Í samrunaskrá félaganna kemur fram að sameiginleg markaðshlutdeild Hringrásar og HP gáma við söfnun endurvinnsluefna og meðhöndlun úrgangs hafi verið um 5-10% árið 2019, en Terra hafi verið með um 25-30% markaðshlutdeild og Íslenska gámafélagið ehf. með um 20-25% markaðshlutdeild.

Samkeppniseftirlitið segir rannsóknir hafi bent til að hluthafar sem eiga í tveimur eða fleirum félögum sem eiga í samkeppni hvert við annað geti dregið úr samkeppnishvötum viðkomandi fyrirtækja, aukið hættu á samráði eða þegjandi samhæfingu keppinauta og leitt til útilokunar og jafnvel aðgangshindrana fyrir nýja keppinauta á markaði.

Í sáttinni sem TFII gerir við Samkeppniseftirlitið skuldbindur það sig við að stjórnarmenn tilnefndir af TFII í stjórn Hringrásar og HP Gáma séu ekki tengdir keppinautum félagsins. Þá eigi stjórn og starfsmenn TFII og Íslenskra verðbréfa að tryggja að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist ekki til hluthafa sem jafnframt eiga eignarhlut í keppinautum Hringrásar eða HP gáma.

Þá mega fulltrúar fjárfestingaráðs TFII ekki mega eiga sæti í fjárfestingaráðum félaga sem eiga hlut í samkeppnisaðilum Hringrásar eða HP gáma.