Lífeyrissjóðirnir verða að ganga lengra í að auka gagnsæi um starfsemi sína að mati Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Þetta sé sérlega mikilvægt vegna þess hve umfangsmiklir þeir séu orðnir á hlutabréfamarkaði, en ríflega 40% af markaðsvirði skráðra félaga er í höndum sjóðanna að því er Fréttablaðið segir frá.

„Ég álít að það eigi að vera algjört gagnsæi um fjárfestingar lífeyrissjóðanna, til dæmis í hverju þeir fjárfesta, hvernig þeir beita sér, með hvaða stjórnarmanni þeir greiða atkvæði á hluthafafundum og hvaða tillögur þeir leggja fram,“ segir Páll en hann segir að jafnframt væri misráðið að gera þá valdalausa.

„Það er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir hafi svigrúm til að beita sér af afli þegar þess er þörf, því þeir fara með fé almennings.“

Segir Páll að það sé óraunhæft að ætla þeim að sitja á hliðarlínunni í ákvörðunum sakir umfangs þeirra, en lífeyrissjóðirnir eigi mikið verk fyrir höndum til að bæta gagnsæi í fjáfestingarákvörðunum sínum. Þyrftu margir þeirra til dæmis að setja sér skýrari reglur um hvernig þeir beita sér sem fjárfestar í mörgum félögum á sama samkeppnismarkaði.