Lífeyrissjóðirnir munu fara fram á að dómskvaddir matsmenn verði fengnir til að leggja mat á hvort gögn sem lögð voru fram í umdeildu skuldabréfaútboði Glitnis í mars 2008 hafi endurspeglað raunverulega stöðu bankans. Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins i dag. Í fréttinni segir að sjóðirnir vilja meina að þeir hafi verið blekktir til að kaupa víkjandi skuldabréf í útboðinu fyrir samtals 10,7 milljarða króna og hafi stefnt slitastjórn Glitnis vegna þessa. Alls keyptu sjóðirnir tæplega 72% af öllum skuldabréfunum sem í boði voru í útboðinu.

Þá kemur fram að undirbúningur að málarekstrinum hafi staðið yfir mánuðum saman en hann snúist um að lífeyrissjóðirnir vilji skuldajafna bréfunum en því hefur slitastjórn Glitnis hafnað. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins stendur málið þannig að sjóðirnir hafa reynt að knýja fram fyrir dómstólum að Glitni verði gert að leggja fram margvísleg gögn sem þeir telja líklegt að sýni fram á að bankinn hafi verið öðruvísi og mun verr staddur en útboðsgögnin sögðu til um. Eiginfjár- og lausafjárstaða hans hafi verið verri auk þess sem áhættuskuldbindingar Glitnis hafi verið vanmetnar.