Líkbíll sem bar ösku hins látna einræðisherra Kúbverja, Fidel Castro, bilaði í hinstu bílferð jarðneskra leifa hans. Castro var fluttur í rússneskum UAZ 3151 herjeppa. Frá þessu er greint á bílasíðunni Jalopnik .

Wall Street Journal fjallaði einnig um jarðaför Castro. Þar kom fram að aska einræðisherrans hafi verið sett í kassa sem að var geymdur í vagni tengdum bílnum og dreginn 500 mílur frá Byltingartorginu í Havana. Bíllinn keyrði þriggja daga leið og rakti meðal annars þá leið sem að skæruhermenn Castros fóru þegar hópurinn framdi valdarán 60 árum fyrr.

Á laugardeginum, þegar jeppinn - sem nefndur var „frelsisvagninn,“ - var að fara síðasta spöl ferðarinnar, bilaði hann og því þurftu fylgdarmenn jeppans að ýta honum í nokkurn tíma. Daginn eftir var Castro grafinn við hlið kúbönsku frelsishetjunnar José Martí.