Íbúðalánasjóður (ÍLS) tók eingöngu tilboðum í lengsta flokk íbúðabréfa (HFF44) í fyrsta útboði ársins en tilkynnt var um niðurstöðuna nú í byrjun vikunnar og var meðalkrafan 2,57%. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að það kunni að vera lægsta krafan sem sjóðurinn hefur fengið í útboði á þessum flokki.

Daginn eftir eða á þriðjudag kom síðan tilkynning frá ÍLS þess efnis að sjóðurinn hefði ákveðið að lækka útlánavexti og verða útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði nú 4,20% og 4,70% á íbúðalán án uppgreiðsluákvæðis en tekið var fram af hálfu ÍLS að lækkunin byggði á ávöxtunarkröfu í útboðinu 16. janúar.