Almenn bjartsýni ríkir um að samningar takist á milli stéttarfélaga iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins í kvöld eða á morgun. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Að öllu óbreyttu munu verkföll félaganna skella á annað kvöld, en samninganefndir funda hjá ríkissáttarsemjara síðdegis eftir að hafa verið að störfum alla helgina.

Sex stéttarfélög iðnaðarmanna hafa boðað vikulangt verkfall frá miðnætti annað kvöld ef ekki nást samningar. Afleiðingar þessa verkfalls yrðu gríðarlegar; almennar sjónvarpsútsendingar RÚV myndu liggja niðri og útvarpsfréttir raskast. Loka þyrfti veitingastöðum þar sem matreiðslumenn og þjónar færu í verkfall. Einnig myndu kjötiðnaðarmenn og bakarar leggja niður störf, svo fleira sé ekki nefnt.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að mikill vilji sé til að ná samkomulagi þó enn vanti örlítið upp á.

„En síðan kemur náttúrulega að því að taka afstöðu til þess hvort að heildarmyndin sem að við erum búin að ná að búa til með þeim, sé ásættanleg. Það mun gerast, á morgun, mánudaginn,“ segir Guðmundur.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífins, er jafnframt ánægður með ganginn í viðræðum undanfarið.

„Viðræður gengu ágætlega fyrir helgina, og það var ákveðið á föstudag að halda áfram viðræðum í dag. Það standa ennþá út af borðinu nokkur atriði er snúa að sérmálum, við erum svona hóflega bjartsýn á að við ættum að sjá til lands í þeim efnum í dag. Við stefnum að því að ljúka samningum í dag, eða í síðasta lagi á morgun.“