Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra að því á dögunum hversu margir erfingjar eða dánarbú ábyrgðarmanna námslána greiði af námslánum sem fallið hafa á dánarbú. Illugi svaraði Sigríði Ingibjörgu því á föstudag í síðustu viku að samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) væru 30 lán í innheimtu þar sem erfingjar eða dánarbú greiða af námslánum nú um stundir.

Erfingjarnir krafðir um greiðslu

Þetta er í samræmi við það sem fram kom á VB.is í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins af því að LÍN eigi í málaferlum við erfingja Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Málið snýst í stuttu máli um það að Steingrímur var í ábyrgð fyrir láni til eins barna sinna. Lánið lenti í vanskilum eftir að Steingrímur lést og eru erfingjar hans krafðir um greiðslu lánsins.

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, sagði í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins, að gerð sé krafa í dánarbú ábyrgðamanna hvort sem þau eru skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum.

„Er þetta í samræmi við lög og jafnræði gildir þá milli erfingja ábyrgðamanna hvort sem dánarbú eru skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum,“ sagði í svari hennar.