Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marels.
Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marels.

Linda Jónsdóttur hefur verið ráðinn sem nýr fjármálastjóri Marel og mun hún taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Linda hefur verið yfirmaður fjárstýringar og fjárfestatengsla frá árinu 2009. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Linda Jónsdóttir er 36 ára gömul og er viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Áður starfaði hún við fjárstýringu og fjármögnun hjá Eimskip, Burðarási og Straumi fjárfestingabanka. Linda hefur setið í stjórn Framtakssjóðs Íslands frá árinu 2010.

„Ég vil þakka Erik Kaman fyrir framlag hans til félagsins á undanförnum árum og jafnframt bjóða Lindu velkomna sem nýjan fjármálastjóra. Linda hefur sýnt mikla leiðtogahæfileika í fyrri forystustörfum sínum fyrir Marel. Ég er fullviss um að hún muni styrkja framkvæmdastjórnina. Verkefnið framundan er að aðlaga rekstur að settum markmiðum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.

Í kjölfar þessara breytinga verður Auðbjörg Ólafsdóttir yfirmaður fjárfestatengsla og samskipta hjá Marel og Bjarki Björnson verður yfirmaður fjárstýringar og fjármögnunar.

Auðbjörg Ólafsdóttir hóf störf sem sérfræðingur í fjárfestatengslum hjá Marel á síðasta ári. Hún er hagfræðingur og stjórnmálafræðingur að mennt. Áður starfaði Auðbjörg hjá Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, Greiningu Íslandsbanka og sem blaðamaður hjá Reuters og Viðskiptablaðinu.

Bjarki Björnsson hóf störf sem sérfræðingur í fjárstýringu hjá Marel árið 2011. Hann er með meistaragráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. gráðu í Viðskiptafræði frá sama skóla. Áður starfaði Bjarki hjá SP-Fjármögnun í fjárstýringu.

Erik Kaman sem hefur verið fjármálastjóri Marel síðan 2008 verður félaginu til ráðgjafar til 1. mars 2015.