Það ætti að koma í ljós í þessum mánuði hvort Kaupþing í Lúxemborg verður selt sjóði í eigu líbýskra yfirvalda. Nú fara fram viðræður milli kröfuhafa og tilsjónarmanna greiðslustöðvunar bankans og fallist þeir fyrrnefndu á söluna ætti að vera hægt að ganga frá málinu.

Enginn annar kaupandi er uppi á borðinu. Yfir fjörutíu aðilar sýndu þó bankanum áhuga í upphafi.

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir í samtali við Viðskiptablaðið að skilanefndinni sé ekki kunnugt um að líbýski sjóðurinn hafi einhver tengsl við íslenska fjárfesta.

Yfirvöld í Lúxemberborg settu Kaupþing í Lúxemborg í greiðslustöðvun 9. október og skipuðu tilsjónarmenn yfir honum. Eftir það var bankinn settur í söluferli.

„Stjórnvöld í Lúxemborg og hópur fjárfesta undir forystu sjóðs í eigu líbýskra yfirvalda hafa vert með sér viljayfirlýsingu, þar sem stefnt er að því að viðhalda áframhaldandi starfsemi í Lúxemborg," segir Steinar í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Samkomulag er til staðar um að belgísk og lúxemborgísk stjórnvöld komi að sölunni og tryggi að innlánseigendur í þeim löndum fái greiddar út innstæður sínar. En það eitt og sér dugar ekki til. Kröfuhafar þurfa líka að koma að borðinu og er sú vinna í fullum gangi á milli kröfuhafa og tilsjónarmanna greiðslustöðvunar í Lúxemborg."

Nánar er rætt við Steinar Þór í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi.