Líran, gjaldmiðill Tyrklands, hefur hækkað styrkst um tæplega 50% gagnvart Bandaríkjadollaranum frá því að hún náði sögulega lágu gengi í gær. Hækkunin kemur í kjölfar nýs sparnaðarkerfis sem greinendur lýsa ráðstöfuninni sem í reynd kraftmikilli vaxtahækkun.

Þegar líran náði sínu lægsta gengi í gær hafði hún lækkað um 60% í ár en gjaldmiðillinn tók að veikjast verulega í haust þegar tyrkneski seðlabankinn réðst í röð stýrivaxtalækkana. Andstaða Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta við háa stýrivaxta hjálpar ekki trúverðugleika seðlabankans.

Erdogan kynnti hins vegar nýtt kerfi í gær sem dregur úr hvata Tyrkja að kaupa erlendan gjaldeyri eða gull með því að bæta þeim upp fyrir gengislækkanir haldi þeir sér við líruna. Fjármálaráðuneytið gaf þó engar skýringar á því hvernig þetta kerfi verður fjármagnað.

Hagfræðiprófessor við Bilkent University í Tyrklandi, Refet Gurkaynak, segir við Financial Times að ráðstöfunin sé ígildi „kraftmikillar vaxtahækkunar“. Hann sagði að þetta kerfi geti leitt til aukins verðstöðugleika en geti þó einnig haft í för með sér hættulegar afleiðingar.

Greinandinn Wolfgango Piccoli hjá ráðgjafafyrirtækinu Teneo sagði með þessu fyrirkomulagi muni skattgreiðendur í raun fjármagna hina auðugu sem komast hjá gengistapi. Gengisáhættan verður núna nærri öll hjá ríkinu.

Þar sem erlendir fjárfestar hafa að stórum hluta haldið sér frá Tyrklandi á undanförnum árum þá hefur flóttinn frá lírunni nær allur verið keyrður áfram af þegnum og fyrirtækjum Tyrklands.

Þó skuldastaða Tyrklands sé betri en hjá mörgum samanburðarríkjum þá vega erlendar skuldir um 60% af heildarskuldum tyrkneska ríkissjóðsins. Fyrir vikið verður dýrara fyrir tyrkneska ríkið að fjármagna sig í hvert sinn sem gengi lírunnar fellur.