Líkt og fimm síðustu sendiherrar Bandaríkjanna á Íslandi á undan honum er Luis E. Arreaga ekki pólitískt skipaður vinur forsetans, heldur starfsmaður utanríkisráðuneytisins sem hefur lagt diplómatastarfið fyrir sig. Arreaga tók við sem sendiherra á Íslandi í september 2010, en þá hafði enginn sendiherra verið á landinu frá því að Carol van Voorst hætti í janúar 2009.

Áður en Arreaga tók við sem sendiherra á Íslandi stýrði hann ráðningarverkefni hjá utanríkisráðuneytinu, en á þeim tíma voru fleiri nýir starfsmenn ráðnir til ráðuneytisins en á nokkrum öðrum tíma í sögu þess. Arreaga hefur víða komið við á ferli sínum, bæði innan ráðuneytisins í hinum ýmsu sendiráðum og stofnunum víða um heim.

Arreaga er mikill listunanndi og hefur safnað listaverkum, einkum verkum sem unnin eru af frumbyggjum og indjánum í N- og S-Ameríku. Þegar sendiherrabústaðurinn var opnaður á menningarnótt í fyrra gátu gestir séð m.a. gullfalleg verk sem hann hafði keypt þegar hann var staðsettur í konsúlatinu í Vancouver.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.