Erlend skuldabréfaútgáfa Arion banka í síðustu viku er lítil að sniðum en markar tímamót sem fyrsta útgáfa íslensks fjármálafyrirtækis á erlendum lánsfjármörkuðum síðan árið 2007. Niðurstaða Icesave-málsins og hækkun matsfyrirtækisins Fitch á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs höfðu jákvæð áhrif. Fram kom í máli Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, á fundi með blaðamönnum á föstudag að ekki væri langt síðan rætt var um talsvert verri lánakjör en fengust á endanum.

Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa unnið að erlendri útgáfu um nokkra hríð. Í tilviki Arion banka hefur vinna staðið yfir frá haustinu 2010. Þá var stefnt að útgáfu eftir tvö til þrjú ár. Það hafðist síðasta föstudag þegar bankinn lauk skuldabréfaútboði í norskum krónum með milligöngu Pareto Öhman. Stærð útgáfunnar er 500 milljónir norskra króna, um 11,2 milljarðar íslenskra króna. Bréfin bera fljótandi 5,0% vexti ofan á NIBOR og eru til þriggja ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.