Íslensk yfirvöld beita að mati leiðtoga atvinnulífsins ónákvæmum og óhagkvæmum leiðum við tekjuöflun sem að lokum skila öfugum tilgangi við það sem lagt er upp með. Þetta er meðal þess sem komið hefur fram á fundi Samtaka atvinnulífsins í dag um skattlagningu íslensks atvinnulífs.

Í hópi frummælenda hafa verið leiðtogar hinna ýmsu hagsmunasamtaka sem öllum ber saman um að sköttum sé ofaukið, þeir sligi atvinnulífið og dragi úr samkeppnishæfi. Burtséð frá meintri ofsköttun beinir atvinnulífið þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að faglega verði unnið að skattlagningu, leitað verði samráðs við þá sem greiða munu skattinn og þeim gefið svigrúm til að bregðast við.

Þannig hafa frummælendur meðal annars sagt:

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og formaður SFF:

„Allar hugmyndir að skattlagningu sem koma til umræðu erlendis virðast samstundis innleiddar hérlendis. Ætli við endum ekki með hvern einasta skatt sem lagður hefur verið til annars staðar þó hann hafi ekki verið innleiddur í því landi sem við sækjum fyrirmyndina til.“

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og formaður SAF:

„Skattabreytingar með stuttum fyrirvara eru eitur í beinum ferðaþjónustunnar. Ekki er óeðlilegt að gera kröfu um tveggja ára aðlögunartíma þegar um er að ræða skattabreytingar.“

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi og formaður Samáls :

„Stöðugt skattaumhverfi er hornsteinn erlendrar fjárfestingar.“