Hlutabréfamarkaðir hækkuðu lítillega í Bandaríkjunum í dag en búast má við því að Bandaríkjaþing samþykki í kvöld eða á morgun aðgerðir í þeirri von að styrkja fjármálakerfi landsins og er það talin meginástæða hækkunarinnar í dag að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Hér er þó ekki um að ræða björgunarpakka fjármálaráðuneytisins sem kynntur var í gær við dræmar undirtektir markaða heldur er um tæplega 800 milljarða dala pakka að ræða sem notaður verður að hluta til í neyðarlán til banka og fjármálafyrirtækja og hins vegar í viðamiklar skattalækkanir.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,4%, Dow Jones um 0,6% og S&P 500 um 0,8%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins en að sögn Bloomberg voru fjárfestar að verða sér út um „ódýr“ hlutabréf í fjármálafyrirtækjum sem hafa lækkað mikið í þeirri trú að þau komi til með að hækka aftur.

Þannig hækkaði Bank of America um 7,9% og Citigroup um 7,8% en rétt er þó að hafa í huga að bankasamstæðurnar lækkuðu töluvert í gær, eða um 16% og 19%.

Þá hélt hráolíuverð að áfram að lækka en gullið hélt áfram að hækka.

Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 36,14 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 3,75% frá opnun markaða. Helsta ástæða lækkunarinnar er að í dag birtu yfirvöld mánaðarlegar tölur um olíubirgðir í landinu sem nú mældust mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Þá kostaði únsan af gulli 941,8 dali við lok markaða og hafði hækkað um 3%.