IAP Worldwide Services, sem er fram að þessu hefur talist lítt þekkt verktakafyrirtæki, hyggst tryggja sér margra milljarða Bandaríkjadala hernaðarsamning við Bandaríkjaher, en Halliburton hefur haft einkarétt á samningnum þar til nú, segir í frétt Financial Times.

Vogunarsjóðurinn Cerberus Capital Management er eigandi IAB en John Snow, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, var skipaður stjórnarformaður sjóðsins í síðasta mánuði. Fram að yfirtöku Cerberus á fyrirtækinu árið 2004 var IAP lítið verktakafyrirtæki með um fimm þúsund starfsmenn, en ef það tryggir sér samninginn mun það verða eitt öflugasta fyrirtæki sinnar tegundar, með sterk pólitísk tengsl. Samningurinn myndi einnig draga athygli stjórnvalda að hlutverki vogunarsjóða á borð við Cerberus á opinberum vettvangi, en fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Dan Quayle, er forstjóri alþjóðaviðskipta sjóðsins.

Halliburton hafði áður einkarétt á samningnum, sem ber heitið Logcap, en samkvæmt honum sér fyrirtækið um að veita bandarískum hermönnum mat, skjól og stuðning. Bandaríkjaher ákvað að afnema einkarétt Halliburton í sumar, en ásakanir eru uppi um að fyrirtækið hafi misnotað hundruð milljóna Bandaríkjadala af fé skattborgara sem áttu að renna til hermanna í Írak og Afganistan. Ákvörðunin er talin renna stoðum undir hugmyndir gagnrýnisradda sem segja að samningurinn sé of stór svo að eitt fyrirtæki ráði við, en samningurinn hljóðaði upp á sjö milljarða Bandaríkjadala (473 milljarðar króna) á síðasta ári.

Talið er að Bandaríkjaher muni velja þrjú fyrirtæki sem muni keppa um samninginn og það fjórða sem muni meta rekstur fyrirtækjanna. Sérfræðingar segja að IAP hafi ekki talist stór aðili í hernaðarviðskiptum fram að þessu, en aðild þekktra aðila á borð við Lockheed Martin muni auka líkur á því að IAP tryggi sér samninginn.