Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mun að svo stöddu ekki tjá sig um stöðuna í makríldeilunni. Þessi svör fengust hjá skrifstofu ráðherra í dag. Sjálfur er hann staddur í Danmörku í einkaerindum.

Búist er við því að Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins leggi í næstu viku fram sáttatillögu í makríldeilunni við Íslendinga og Færeyinga. Norskir fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að samkvæmt þeim tillögum fengu Íslendingar 12% af heildarkvóta.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir of snemmt að tjá sig um ákveðnar tölur í þessu sambandi fyrr en þær fást staðfestar.

„Það er öllum fyrir best að klára samninga og til þess að það megi verða þá verða allir að líta í eigin barm og gefa eftir af ítrustu kröfum,“ segir Kolbeinn.