*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 22. apríl 2021 11:03

Ljósi varpað á ríkidæmi landsbyggðarinnar

Ljós í fjós, glatvarmi, hamingjan, nýsköpun og ríkidæmi landsbyggðarinnar var meðal þess sem rætt var á ráðstefnu FKA.

Ritstjórn
Laufey Guðmundsdóttir var ráðstefnustjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hélt opnunarávarp.
Aðsend mynd

Ljós í fjós, glatvarmi, hamingjan, nýsköpun og ríkidæmi landsbyggðarinnar var meðal þess sem rætt var á ráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu um helgina.

Yfirskrift ráðstefnunnar var: Arðsemi hamingjunnar á landsbyggðinni - Ný heimssýn á nýjum tímum og fjallaði hún um tækifærin sem taka á sig ótal myndir um landið allt.

„Atvinnulífið hefur verið að taka á við breyttan veruleika og við höfum þurft að vera að gera tilraunir á tímum Covid þannig að það var verulega gaman og gefandi að heyra um vegferð frumkvöðla, hindranir í kerfinu, árangur og kynna sunnlenska-módelið sem engu líkt," segir Laufey Guðmundsdóttir stjórnarkona FKA hjá Markaðsstofu Suðurlands, sem var ráðstefnustjóri. „Það er undantekning ef kona á Suðurlandi er ekki í blómstrandi suðurlandsdeild Félags kvenna í atvinnulífinu," bætir hún við.

Ljós í fjós!

„Tækifærin á landsbyggðinni eru óteljandi og þau voru rædd á ráðstefnunni. Sigurður Ingi Jóhannsson Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra opnaði ráðstefnuna og ræddi mikilvægi hamingjunnar. Ljós í fjós er nokkuð sem hann nefndi enda veit hann hvað störf án staðsetningar þurfa. Það er einungis tvennt: nettengingu og samgöngur ," segir Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst og stjórnarkona FKA. „Það var virkilega athyglivert að hlusta á hann og heyra að skilningurinn er sameiginlegur á hvað þarf að gera til að halda landinu í byggð."

„Covid hefur sannað að fólk getur sett lífsgæðin í forgang, flutt starfið með sér á sinn drauma búsetustað eða skapað tækifæri hvar sem er á landinu. Íbúum stórborga í Evrópu hefur fækkað undanfarið ár og smærri borgir og bæir hafa endurheimt sinn fyrri sjarma. Um ræðir gífurlega mikilvægt byggðamál og tækifæri til að halda landinu í byggð," bætir Margrét. Líkt og fyrr segir starfar hún sem rektor á Bifröst en ráðstefnan var send út gegnum fjarfundabúnað þaðan.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, hélt erindið: Hvað svo?

Mikilvægt byggðamál

„Um ræðir gífurlega mikilvægt byggðamál og tækifæri til að halda landinu í byggð. Til að vel takist til er nauðsynlegt að styrkja samfélög á landsbyggðinni og bjóða upp á öfluga grunnþjónustu fyrir íbúa. Tæknin hefur líka fært okkur nær hvert öðru og nánd má finna í fjarlægðinni. Það ræddi Sigrún Davíðsdóttir sem talaði af sinni alkunnu snilld frá London," segir Margrét.

„Landsbyggðadeildir Félags kvenna í atvinnulífinu FKA tóku til dæmis höndum saman með þessa ráðstefnu og hafa félagskonur aldrei verið í eins nánu og góðu samtali eins og á tímum Covid. Tæknin hafa fært okkur tækifæri og við höfum sótt viðburði um land allt hjá öðrum landsbyggðadeildum sem hefur verið rosalega gaman," segir Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, stjórnarkona hjá FKA Norðurlandi um þessa nýju heimssýn á nýjum tímum.

Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, stjórnarkona hjá FKA Norðurlandi, sat í skipulagsnefnd.

„Mörg okkar ná að sinna vinnunni, skila verkefnum af okkur hvort sem við sitjum við eldhúsborðið, í stofusófanum eða uppi í bústað. Fyrirlesararnir á ráðstefnunni okkar eiga það allir sameiginlegt að blómstra við búsetu á landsbyggðinni. Sjáðu Hildi Þóru Magnúsdóttur eiganda Pure Natura sem er komið með sína vöru inn í netverslun Walmart og Amazon í Bandaríkjunum. Hvaðan? Jú, Hegranesi," segir Margrét. „Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og möguleikarnir ólíkir en Covid hefur sýnt og sannað að víða er óhætt að stokka spilin að nýju," segir hún að lokum.

Þátttakendur á ráðstefnunni.

Stikkorð: FKA