Hlutabréf lækkuðu í verði í Asíu í dag, en MSCI Asian Pacific vísitalan hafði lækkað um 0,3% rétt fyrir lokun í Tókýó. Þrátt fyrir það hækkaði hún í vikunni og var það í fyrsta skipti á árinu sem það gerðist. Nikkei 225 vísitalan í Japan endaði nærri núllinu, eftir að hafa lækkað um 2% fyrri part viðskiptadagsins.

Bankar og tæknifyrirtæki lækkuðu mest og að sögn Bloomberg er lækkunin sem fyrri daga rakin til ótta um að Bandaríkin séu á leiðinni í samdráttarskeið, sem bitni á hagvexti annars staðar í heiminum. „Neikvæðu tíðindin halda áfram að berast af lánsfjármarkaðinum,“ hefur Bloomberg eftir Naoteru Teraoka, sem vinnur við að stýra 21 milljarðs dollara sjóði hjá Chuo Mitsui Asset Management í Tókýó. „Ég held að markaðirnir séu ekki reiðubúnir til að rísa í bráð.“