Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, sparar olíuverðslækkunin á heimsmarkaði íslenska þjóðarbúinu 575 milljónir dala á ársgrundvelli í gjaldeyri eða ríflega 65 milljarða króna miðað við stöðu Bandaríkjadalsins nú.

,,Það eru engar smátölur ef miðað er við verðið í sumar. Sú lækkun sem orðið hefur á útsöluverði í smásölu er að spara heimilunum 10,5 milljarð króna á ári í beinum útgjöldum. Nú heggur ríkið í það með hækkun á eldsneytisgjaldi. Frá því verðið var hæst í sumar er þetta breytingin og hún er gríðarleg.

Það eru því ýmsir kraftar sem eru að vinna með okkur í efnahagsmálum. Það er ekki bara lækkun olíuverðsins heldur einnig mikli lækkun á stáli, fóðri og korni. Auðvitað er krónan mjög veik. Ef hún væri á einhverju skikkanlegu róli væri bensínlítrinn nálægt 100 krónum en ekki 140 krónum.

Hermann Guðmundsson spáir því að krónan verði í rólegum styrkingarfasa frameftir nýju ári. ,,Það er erfitt að veikja hana vegna þess að svo litlu er hægt að rjátla út af gjaldeyri. Þeir sem eru að flytja út verða að selja stóran hluta gjaldeyrisins til að greiða innlendan kostnað. Mér þætti ekki ólíklegt að hún myndi styrkjast hægt og rólega á nýju ári.”

Nú hefur hún verið að veikjast síðustu daga?

,,Það er vegna þess að gusan sem skilaskyldan lagði á menn er að komast í gegn. Það er jafnræði á markaðinum. Það er lítið að gerast. Innflytjendur halda að sér höndum við að greiða reikninga í von um að krónan styrkist meira en þeir sem eru búnir að vera taka gjaldeyrinn heim eru ekki búnir að vera að selja mikið undanfarna daga. Ég held að þeir muni selja fyrir áramót til að gera upp sína reikninga. Þetta er því smá logn.”