Sjávarútvegfélögin tvö, Brim og Síldarvinnslan, báru höfuð og herðar yfir önnur félög í Kauphöllinni þegar kemur að gengishækkunum. Hækkaði gengi hvors félags fyrir sig um ríflega 9%. Fyrir vikið stendur gengi Brims nú í 72 krónum á hlut og Síldarvinnslunnar í 83,6 krónum á hlut.

Þessi uppsveifla ætti þó lítið að koma á óvart í ljósi þess að fyrr í dag var greint frá því að Hafrannsóknarstofnun hafi í morgun ráðlagt veiðar á allt að 904.200 tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð . Til samanburðar var kvótinn síðasta vetur 127.300 tonn.

Gengi úrvalsvísitölunnar OMXI10 lækkaði um 0,42% í viðskiptum dagsins og stendur í kjölfarið í 3.316,86 stigum. 1,55% lækkun á gengi hlutabréfa Marels hefur væntanlega haft mest með þá lækkun að gera.