Tími ódýrs jarðefnaeldsneytis er liðinn og loftslagið þolir ekki meiri útblástur, sagði Þorkell Helgason orkumálastjóri í erindi á fundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja fyrr í dag. Þorkell sagði vonandi nást samstaða þjóða á meðal um kröftuga stjórn á loftslagsmálum og að æskilegast væri að það yrði með almennum framseljanlegum losunarkvótum.

Markaðsöflin myndu þá sjá til þess að lausnir yrðu fundnar. ?Við Íslendingar erum í grundvallaratriðum vel settir í þessu samhengi. Við þurfum ekki að óttast loftslagskvóta; þvert á móti auka þeir verðmæti orkulinda okkar. Við ættum því að fagna slíku fyrirkomulagi,? sagði Þorkell meðal annars, og bætti því við að við ættum að hasla okkur völl í alþjóðasamfélaginu á sviði vistvænnar orku.