Slitastjórnir og skilanefndir gömlu bankanna þriggja geta ekki rift fjármálagjörningum þeirra hluthafa, stjórnenda, starfsmanna bankanna og annarra sem mögulega fengu óeðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkunum ef viðkomandi er með lögheimili erlendis, vegna varnarþingsreglna.

Þetta þýðir að ekki er hægt að rifta þeim samningum sem gerðir voru eða viðskiptum sem gerð voru í aðdraganda bankahrunsins.

Auk þess þykir sá tími sem slitastjórnirnar hafa til að rifta kröfum allt of skammur. Verði hann ekki lengdur sé hætt við því að mörg riftunarhæf mál falli utan tímarammans.

Slitastjórnir og skilanefndir Kaupþings, Landsbanka og Glitnis sendu sameiginlegt bréf til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í síðustu viku til að vekja athygli á þessu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögmenn margra fjármálamanna hafi unnið að því að færa lögheimili þeirra að undanförnu til þess að ekki sé hægt að stefna þeim til riftunar né setja þá í þrot fyrir íslenskum dómstólum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .