Hafandi sagt sig úr stjórnum 17 hlutafélaga situr Jón Ásgeir Jóhannesson þó enn í stjórnum 13 annarra þrátt fyrir misst hæfi sitt til stjórnarsetu næstu þrjú árin, þegar hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm snemma sumars.

Bæði Áslaug Björgvinsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Páll Arngrímsson héraðsdómslögmaður hafa opinberlega haldið því fram að Jón Ásgeir hafi orðið vanhæfur til stjórnarsetu um leið og dómur féll og beri því sú skylda að víkja úr stjórn hið snarasta í kjölfar dómsuppkvaðningar.

Jón Ásgeir og lögmaður hans Gestur Jónsson hafa hinsvegar sagst fylgja leiðbeiningum Hlutafélagaskrár um að honum beri ekki að víkja fyrr en á næsta aðalfundi félaganna.

Það er samhljóma álit þeirra lögfróðu aðila sem Viðskiptablaðið ræddi við að í hlutafélagalögum séu ákvæðin fortakslaus á þann hátt að menn missi umboð sitt til stjórnarsetu um leið og dómur fellur yfir þeim.

Spurningin er því hvers vegna hann hafi ekki þegar vikið úr stjórn og hvar ábyrgðin liggi.

Það er algjör grunnskylda stjórna hlutafélaga að haga stjórnuninni í samræmi við lög og því beri meðstjórnendum að skipta út stjórnarmanni um leið og hann verður vanhæfur til stjórnarsetu og einnig er það stjórnarmannsins sjálfs að víkja þegar hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til stjórnarsetu.

Þáttur Hlutafélagaskrár hlýtur einnig að skipta máli í ljósi þess að Jón segist fylgja leiðbeiningum hennar um hvernig standa skuli að því að hætta í stjórn í kjölfar dóms.