Aukið löglegt framboð tónlistar á netinu hefur dregið úr ólögmætri dreifingu og greiðara aðgengi að löglegu stafrænu efni spornar gegn ólögmætri notkun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu.

Í desember sl. skipaði mennta- og menningarmálaráðherra rýnihóp sem hafði það hlutverk að greina hindranir sem kunna vera á því að íslenskum notendum standi til boða sambærileg streymiþjónusta fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist eins og notendum í öðrum norrænum ríkjum. Niðurstöður skýrslunnar eru m.a. þær að hópurinn telur að smæð hins íslenska markaðar sé helsta hindrunin fyrir því að erlendar og innlendar efnisveitur bjóði upp á þjónustu sína hér á landi með formlegum hætti. Efnisveiturnar sjá sér ekki hag í því að laga þjónustu sína að íslenskum markaði.

Ólöglegt niðurhal síðri kostur en áður

Í skýrslunni kemur fram að með tilkomu löglegra efnisveita á netinu, sem bjóða upp á einfaldari og aðgengilegri leiðir til að njóta tónlistar, kvikmynda og sjónvarpsefnis, sé ólölegt niðurhal orðið síðri kostur fyrir notendur en áður. Að mati rýnihópsins eru það nokkur vonbrigði hversu lítil þróun hefur orðið á framboði á löglegum kostum fyrir notendur á stafrænu menningarefni hér á landi, einkum þó myndefni.

Þá benda niðurstöður kannana til þess að löglegt framboð tónlistar á netinu hafi dregið úr notkun ólöglegra leiða.  Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur niðurstöður skýrslunnar mjög athyglisverðar og gefa tilefni til að athuga sérstaklega hvernig koma megi meira af íslensku efni á streymisveitur, auka framboð á íslensku efni á vefnum og sporna gegn ólöglegri dreifingu efnis.