Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda árið 2014 og kynnti niðurstöðurnar nú í morgun. Heildarálagning á lögaðila nemur rúmum 181 milljarði króna og leiðir Kaupþing listann yfir gjaldhæstu lögaðilana á árinu með rúma 14,6 milljarða króna.

Athygli vekur að í 33. sæti listans situr lögmannsstofan Logos, en hún greiðir rúmar 418 milljónir króna í opinber gjöld. Listinn nær yfir 40 lögaðila og er Logos eina lögmannsstofan á listanum.

Samkvæmt ársreikningi síðasta árs nam hagnaður Logos tæpum 718 milljónum króna, og dróst reyndar lítillega saman á milli ára, en hann nam rúmum 918 milljónum króna árið 2012. Tekjur félagsins námu rúmum 2,4 milljörðum króna en tæplega fjórðungur teknanna kemur frá rekstri lögmannsstofu fyrirtækisins í London.

Logos skilaði mestum hagnaði allra lögmannsstofa í fyrra. Næst á eftir komu LEX með 204 milljónir króna hagnað og BBA Legal með 134 milljónir króna.