Lóðir í fyrsta og öðrum áfanga Urriðaholts í Garðabæ eru svo til allar uppseldar og ákveðið hefur verið að flýta sölu einbýlishúsalóða í þriðja og síðasta áfanga og hefst salan á mánudag.

Í fréttatilkynningu frá Urriðaholti hf. segir að alls hafi lóðir undir 278 íbúðir verið seldar í Urriðaholti. Lóðir undir fjölbýlishús og raðhús eru seldar til verktaka en aðrar lóðir til einstaklinga. Þess má geta að Íslenskir aðalverktakar keyptu allar lóðir í einni götunni, Mosagötu, undir samtals 77 íbúðir.

Gatnaframkvæmdir á vegum Garðabæjar eru hafnar í Urriðaholti og verða fyrstu lóðir afhentar í vor. Verð einbýlishúsalóða í Urriðaholti er frá 17,9 milljónum króna.