Viðræður um kaup bandaríska fjárfestingafélagsins Indigo Partners á WOW runnu út í sandinn í gær. Í kjölfarið hófust viðræður milli Wow og Icelandair Group og er stefnt að því að þeim ljúki eftir helgi, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi . Í tilkynningu frá Icelandair í gær kemur fram að viðræðurnar fari fram í samráði við stjórnvöld.

Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair og núverandi eigandi flugfélagsins Bláfugls, sagði í viðtali á Ras 2 í morgun að viðræðurnar væru lokatilraun til að bjarga WOW. Hann telur að ástæðan fyrir þessum stutta tíma sem gefinn er í viðræðunum kunni að vera sú að gjalddagi sé á 150 milljóna króna vaxtagreiðslu á láni WOW á mánudag.

„Pakkinn hefur bara versnað en staða Icelandair hefur líka breyst út af Max-vélunum sem hafa verið kyrrsettar. Núna er Icelandair með þrjár slíkar vélar og tekur við sex vélum á næstu mánuðum. Það gæti því verið að þeim vantaði níu velar. Ef allt fer á versta veg. Auðvitað er hvatinn því allt annar núna og meiri að skoða þetta upp á nýtt,“ sagði Steinn Logi í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Steinn Logi segir að það verði hættulegt fyrir Icelandair að kaupa kennitölu WOW. „Það er svona óþekkt skuldastærð, samkomulagið við skuldabréfaeigendur er búið að rakna upp. Ef Icelandair kemur að þessu undir sömu kennitölu þá veit maður ekki hvort að leigusalar og eitthvað málamyndasamkomulag sem er búið að ná við þá myndi rakna upp líka. Þannig að ég held að það sé hættulegasta leiðin og ég held að Icelandair ætti að forðast það í lengstu lög að þurfa að taka yfir kennitöluna,“ sagði Steinn Logi. Hann telur að það væri best fyrir Icelandair Group að komast yfir Airbus vélarnar sem Wow air  hefur á leigu, flugrekstrarleyfi fyrir þær og vörumerkið WOW air.