Engar eignir fundust í þrotabúi félagsins Lokkadís ehf upp rúmlega 308 milljóna króna lýstar kröfur. Félagið var í eigu Sáttar ehf, félags Guðmundar Ólasonar, framkvæmdastjóra fjárfestingarfélagsins Milestone. Lokkadís er annað tveggja félaga Guðmundar sem fékk lán til kaupa á hlutabréfum Milestone og Askar Capital. Félagið var úrskurðar gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness 21. september í fyrra, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Lánveitingar til Lokkadísar voru í blandaðri erlendri mynt, evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og bandaríkjadölum. Í lok stofnárs félagsins árið 2007 námu lán til Lokkadísar rúmum 266 milljónum króna. Verðmæti eigna 200 milljónum króna í lok árs 2007 en 400 milljónum króna ári síðar. Á sama tíma var eigið fé félagsins neikvætt um rétt tæpar 66 milljónir króna við lok árs 2007 en um heilar 244 milljónir króna í lok árs 2008. Eftir að Askar Capital fór á hliðina með Milestone í kjölfar bankahrunsins urðu hlutabréf Askar verðlaus.

Á þriðjung í stórskuldugu félagi

Í lok árs 2010 átti Lokkadís 33% hlut í félaginu Rákungi ehf. Fjallað er um Rákung í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir m.a. að félagið hafi verið stofnað í febrúar árið 2008. Í sama mánuði lánaði Glitnir því 5,2 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum bankans. Seljandi voru eigin viðskipti Glitnis. Eftir viðskiptin varð Rákungur 12. stærsti hluthafi Glitnis með 2% hlut.

Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar segir orðrétt um tilurð Rákungs:

„Á fundi áhættunefndar Glitnis sem haldinn var í febrúar 2008 kemur fram að fyrirhugað sé að stofna nýtt félag, SPV (e. Special Purpose Vehicle), sem kaupa muni um 2% hlutafjár í bankanum fyrir um 5,2 milljarða kr. Félagið hlaut síðan nafnið Rákungur ehf. Rákungur ehf. óskaði síðan eftir 100% fjármögnun á hlutabréfakaupunum. Áhættunefnd Glitnis samþykkti síðan ofangreinda lánveitingu að því tilskildu að eigið fé yrði á bilinu 300 - 500 milljónir kr. Til tryggingar láninu yrði annaðhvort um að ræða veðsetningu á VS-reikningi (vörslureikningi) þar sem bréfin yrðu vistuð eða sett yrði veðsetningarbann á eignir félagsins ásamt banni við frekari skuldsetningu. Jafnframt yrði tekið veð í hlutabréfum Rákungs ehf. Félagið yrði jafnframt í skuldastýringu hjá Glitni.“

Í ársreikningi Rákungs fyrir uppgjörsárið kemur fram að félagið skuldar Glitni tæpa 13 milljarða króna og var eigið fé félagsins neikvætt um rúma 13,5 milljarða. Gjalddagi á lánum Rákungs var árið 2011.