Lokun Woolwirths verslananna í Bretlandi, sem eru að hluta til í eigu Baugs virðist ætla að draga dilk á eftir sér en breska blaðið The Daily Telegraph greindi frá því í gær að tónlista- og afþreyingaverslunarkeðjan Zavvi (sem áður hét Virgin Megastores) mun að öllum líkindum þurfa að loka í kjölfarið.

Þannig eru mál með vexti að helsti birgir Zavvi er fyrirtækið Entertainment UK sem er dótturfélag Woolworths. Eins og áður hefur komið fram munu Woolworths verslanirnar loka fyrstu vikuna í janúar en Entertainment UK hefur þegar verið sett í greiðslustöðvun og mun samkvæmt heimildum blaðsins verða keyrt í þrot.

Þannig hefur Zaavi ekki tekist að verða sér út um vörur síðustu daga og að sögn blaðsins er allt eins líklegt að verslunum verði lokað og þeim 3.400 manns sem starfa hjá félaginu sagt upp störfum.

Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hefur verið skipaður gæsluaðili yfir Zavvi og þegar tekið við rekstri þess. Eins og áður hefur komið fram tíðkast það í Bretlandi að endurskoðunarfyrirtæki eða aðrir aðilar taki yfir rekstur félaga í greiðsluvanda samkvæmt dómsúrskurði frekar en að setja þau í greiðslustöðvun.

Í tilkynningu frá Ernst & Young kemur fram að reynt verður eftir fremsta megni að koma eigum og rekstri Zavvi i verð með því að selja eignir, lager og fleira til.

Þá hefur Telegraph eftir heimildarmanni sínum að ólíklegt sé að einhver vilji kaupa reksturinn í heilu lagi. Þó eru vangaveltur um að HMV Group, helsti samkeppnisaðili Zavvi, hafi áhuga á að eignast einhverjar verslanir félagsins.