Samkvæmt tölum Hagstofunnar var losun koltvísýrings vegna reksturs innan hagkerfis Íslands 5.244 kílótonn á árinu 2022. Í samanburði nam losun koltvísýrings 4.328 kílótonn árið 2021 og samsvarar þetta 21,2% aukningu á milli ára.

Árið 2021 losuðu flutningar með flugi, flutningar á sjó, fiskveiðar og heimilin hvert í kringum 450 kílótonn en málmiðnaður var stærsta uppspretta koltvísýrings, eða 1.757 kílótonn og hefur sú tala haldist nánast óbreytt síðan 2012.

Losun frá flugi hefur aukist úr 466 í 1.332 kílótonn milli 2021 og 2022 en mikil aukning hefur verið í flugrekstri og komu ferðamanna til Íslands undanfarið.

© HAG / AÐSEND (HAG / AÐSEND)

Losun koltvísýrings náði hámarki árið 2018 en það ár var losun frá flugrekstri 3.568 kílótonn. Gjaldþrot í greininni ásamt samgöngutakmörkunum vegna kórónuveirufraraldursins varð til þess að losunin árið 2021 var sú minnsta frá 1995.

Árið 2021 var losun frá bílum í rekstri heimila 471 kílótonn og losun fyrirtækja í flutningarekstri 96 kílótonn en undir þá atvinnugrein falla strætisvagnar, rútur og bílar í rekstri aðila í flutningarekstri.