Ekki er útilokað að þýska flugfélagið Lufthansa reyni að kaupa norræna keppinautinn SAS á næstu árum. Þetta segir Götz Ahmelmann, markaðsstjóri Lufthans. Eins og fram hefur komið glímir SAS við rekstrarvanda og var flugfélaginu naumlega bjargað frá því að fara í þrot um síðustu helgi.

Fram kemur í samtali sænska dagblaðsins Dagens Nyheter við Ahmelmann, að honum lítist vel á björgunaráætlun SAS. Hann bætir því þó við að ekki verði ráðist í að reyna að kaupa SAS á næstu mánuðum heldur sé um framtíðarmúsík að ræða.

„En það er aldrei að vita hvað gerist eftir tvö til þrjú ár,“ segir hann og leggur áherslu á mikilvægi norræna markaðarins fyrir Lufthansa.