*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 12. maí 2021 15:11

Lumina selur til Origo

Lumina hafa selt heilbrigðislausn sína til Origo, stefna á erlenda markaði og horfa til Spánar.

Ritstjórn
F.v. Guðjón Vilhjámsson, Arnar Freyr Reynisson, Steingrímur Árnason.
Aðsend mynd

Lumina Medical Solutions hefur selt heilbrigðislausnina Lumina til Origo. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lumina.  

Lausnin notuð í þróun á Sögukerfinu

Origo rekur sjúkraskrárkerfið Sögu sem nýtt er af meginþorra heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi og kemur til með að nota lausnina í áframhaldandi þróun á nýju notendaviðmóti Sögukerfisins sem reiknað er með að komi á markað á næstunni. „Origo hefur lengi fylgst með þróuninni á Lumina og haft áhuga á þeim nýstárlegu hugmyndum sem notendaviðmót kerfisins byggir á. Undanfarin misseri hefur Origo unnið að umfangsmikilli endurhönnun sjúkraskrárkerfisins Sögu og við erum sannfærð um að þessi kaup hjálpi okkur og stytti okkur leið á þeirri vegferð, " segir Guðjón Vilhjálmsson forstöðumaður heilbrigðislausna Origo í tilkynningunni.

Auðveldar starf heilbrigðisstarfsfólks

Heilbrigðislausnin Lumina gerir læknum og hjúkrunarfræðingum kleift að greina og skrá upplýsingar um heilsufar sjúklings á fjölmörgum tungumálum, senda lyfseðla í apótek og tilmæli til sjúklings. „Við erum að þróa alveg nýja lausn fyrir alþjóðlega heilbrigðismarkaðinn. Lausnin greinir einkenni sjúklings óháð tungumáli og á sama tíma skrifar kerfið faglega og fjöltyngda læknaskýrslu fyrir viðkomandi lækni til að nota við greiningu og skoðun á sjúklingi. Framtíðin í heilbrigðisþjónustu er að færast yfir í stafrænar lausnir og á sama tíma er aukin krafa á stofnanir að styðja betur við starfsfólkið og bæta upplifun sjúklinga á þjónustunni," segir Steingrímur Árnason forstöðumaður tækniþróunar Lumina í tilkynningunni.

Horfa til Spánar

Fyrirtækið horfir fyrst til Spánar og svo þaðan inn á aðra markaði. Þá mun Lumina breyta nafni sínu í Dicino vegna inngöngu á erlenda markaði þar sem nafnið er nú þegar frátekið.  „Spánn er tilvalið land til að byrja á þar sem ríkisstjórn Spánar, héruð og einkarekin fyrirtækin hafa sett sér það að markmiði að stafræna heilbrigðiskerfið þar í landi. Spánn á einnig von á háum fjárhagslegum styrk frá Evrópusambandinu vegna COVID-19 til að mæta þessu markmiði. Við höfum þegar ráðið inn reyndan aðila í Madrid sem hefur mikil tengsl og þekkingu á þessum markaði til þess að fara með okkar mál á Spáni," segir Arnar Freyr Reynisson framkvæmdastjóri Lumina í tilkynningunni.

Lumina Medical Solutions hefur þegar fengið 10 milljón króna styrk frá Tækniþróunarsjóði fyrir nýju lausnina til þess að sækja inn á markaðinn á Spáni. Fyrirtækið hyggst þar að auki sækja enn frekara fjármagn til þess hraða tækniþróuninni og efla sóknina á Spáni. 

Stikkorð: Origo Dicino Lumina