Stjórnvöld í Lúxemborg íhuga að auka gagnsæi í fjármálakerfi landsins og aðstoða skattayfirvöld í öðrum ríkjum í auknum mæli til að koma í veg fyrir skattaundanskot. Luc Frieden, bankamálaráðherra landsins, sagði þetta í viðtali við þýskt dagblað um helgina. BBC greinir frá.

Lúxemborg hefur verið þekkt fyrir bankaleynd og eru þýsk stjórnvöld meðal þeirra sem gagnrýnt hafa Lúxemborg fyrir að veita auðmönnum og fyrirtækjum skattaskjól. Í viðtalinu segir bankamálaráðherrann að aukin krafa sé gerð um að Lúxemborg veiti ítarlegri upplýsingar um hvað landsmenn annarra þjóða eigast við innan banka í Lúxemborg. Í viðtalinu segir ráðherrann að stjórnvöld í Lúxemborg séu ekki lengur alfarið á móti aukinni upplýsingagjöf.