Ástralska fjármálafyrirtækið Macquarie Bank er að undirbúa kauptilboð í kauphöllina í London, samkvæmt upplýsingum Financial Times.

Forsvarsmenn fyrirtækisins munu funda með hluthöfum LSE síðar í vikunni, þar sem þeir ætla sér að telja stjórnendum kauphallarinnar trú um að Macquarie sé eini áreiðanlegi kaupandinn.

LSE hafnaði óbindandi tilboði frá Macquarie Bank á föstudaginn, sem hljóðaði upp á 580 pens á hlut. Viðskipti voru með bréf í LSE á genginu 612 pens á hlut á föstudaginn og var lokagengi dagsins 619 pens.

Sérfræðingar segja að lokagengið bendi til þess að markaðurinn búist við að Macquarie Bank sé tilbúinn að borga vel yfir 600 pens á hlut fyrir LSE.
Lengi hefur verið búist við samþjöppun kauphalla í Evrópu og hafa evrópska kauphöllin Euronext og Deutsche Börse einnig sýnt LSE áhuga. Einnig hefur komið til tals samvinna LSE og norrænu kauphallarinnar OMX, sem hafði áhuga á að taka yfir Kauphöll Íslands.

Kauphöll Íslands ákvað nýlega að hefja ekki samrunaviðræur við OMX, eftir að ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting útbjó skýrslu sem kannaði kosti þess og galla að sameinast OMX