Hluthafar Marel munu verða fyrir vonbrigðum á þessu ári í skugga þess að tekjur fyrirtækisins hafa dregist saman á árinu. Líklegt er að lykilstjórnendur Marel finni sömuleiðis fyrir vonbrigðum, að mati IFS Greiningar , sem hefur birt uppfært verðmat á Marel í kjölfar uppgjörs fyrirtækisins sem birt var síðla dags á miðvikudag.

Hagnaður Marel nam tæpum sex milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, jafnvirði rúmra 700 milljóna íslenskra króna. Til samanburðar nam hagnaður Marel á sama tíma í fyrra 8,4 milljónum evra. Þessu samkvæmt dróst hagnaðurinn saman um 29% á milli ára. Marel býst við því að tekjur fyrirtækisins í ár muni lækka um 6-8% frá fyrra ári.

Spurning með pantanabókina

IFS Greining bendir eins og aðrir að dregið hafi úr pöntunum hjá Marel og sé nú svo komið að staða pantanabókarinnar sé komið á varhugavert stig. Það endurspegli stöðuna á erlendum mörkuðum.

Þrátt fyrir þetta mælir IFS Greining með því að fjárfestar bæti við sig í hlutabréfum Marel miðað við núverandi gengi hlutabréfa fyrirtækisins enda líklegt að botninum sé náð enda matvælamarkaðir að ná sér á strik á nýjan leik þótt batinn verði hægur. Þegar upp verður staðið telur reyndar IFS Greining, að Marel muni standa á styrkum fótum. Gengi bréfa Marel hefur gefið talsvert eftir síðan í ágúst. Þá stóð það í 143 krónum á hlut en er nú komið niður í 124 krónur.

IFS Greining verðmetur hlutabréf Marel á 135,5 krónur á hlut, sem er tæplega 8,9% yfir gengi dagsins.