Fyrirtækjagreining Íslandsbanka ráðleggur fjárfestum að selja hluti sem þeir eiga í Högum, samkvæmt greiningu sem þeir gáfu út eftir lokun markaða í dag.

Í greiningunni kemur fram að þar sem ráðgjafareglan er sú að ef verðmatsgengi er innan við 10% frá markaðsgengi er mælt með því að fjárfestar haldi bréfum sínum. Eftir lokun í dag var verðmatsgengið 10,3% undir síðasta markaðsgengi og er ráðgjöfin því að selja.

Í greiningunni kemur einnig fram að söluvöxtur var í matvöruhluta Haga en enginn vöxtur í sérvöruhlutanum. Vöxturinn var hins vegar undir verðbólgu og líkur eru á að vöxtur félagsins á núverandi rekstrarári verði lítið umfram verðbólgu. Talið er líklegt, samkvæmt greiningunni að félagið muni fækka sérvöruverslunum á rekstrarárinu.

Einnig kemur fram að verðmatsgengið gæti hækkað um 0,7 krónur á hlut ef Hagar vinna dómsmál gegn Arion Banka sem höfðað var vegna gengisbundinna lána sem félagið greiddi upp í október árið 2009. Málið hefur ekki verið dómtekið. Verðmatsgengi greiningarinnar á bréfum Hagar er í dag 17,0 krónur á hlut. Til samanburðar var gengi Haga 18,95 krónur á hlut við lokun markaðar í dag.