Alþjóðaskólinn á Íslandi er alþjóðlegur grunnskóli sem starfar samkvæmt alþjóðlegri námskrá. Hanna Hilmarsdóttir skólastjóri segir nemendur nú vera að jafnaði um 100 talsins, en þegar skólinn hóf starfsemi árið 2004 voru nemendurnir fimm.

Árið 2006 flutti skólinn í Garðabæ, þar sem hann fékk aðsetur inni í Sjálandsskóla. Alþjóðaskólinn stefnir nú á að fara í eigið húsnæði.

„Það er verið að hanna nýtt húsnæði skólans sem verður byggt á fallegri lóð sem heitir Þórsgrund og er hér rétt hjá Sjálandsskóla, bara hinum megin við undirgöngin," segir Hanna.

Hanna segir mikið frumkvöðlastarf unnið í skólanum, sem styðji meðal annars við atvinnulífið á Íslandi.

„Það er óhætt að segja að skólinn hafi synt á móti straumnum á upphafsárunum. Það var ekki til neitt regluverk hér á landi fyrir alþjóðlegan grunnskóla en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Skólinn spilar líka hlutverk í því að laða starfsfólk hingað til lands erlendis frá, en margir erlendu sérfræðinganna sem hingað koma eru á þeim aldri að þeim fylgja gjarnan börn á skólaaldri. Áður fyrr vantaði skólaúrræði fyrir þessi börn, sem Alþjóðaskólinn mætir í dag, þannig að þetta er mikið frumkvöðlastarf."

Sníða sér stakk eftir vexti

Þetta er þriðja árið í röð sem Alþjóðaskólinn er á meðal fyrirmyndarfyrirtækja og segir Hanna reksturinn hafa gengið vel.

„Reksturinn hefur gengur vel og hefur verið þannig að ef það er afgangur þá er hann settur í sjóð, sem við köllum byggingarsjóðinn okkar. Enginn arður er greiddur út úr rekstrinum, við erum alltaf að safna og sníðum okkur stakk eftir vexti. Við höfum aldrei tekið lán, bara notað það sem við höfum, hugsað út fyrir rammann, sýnt þrautseigju og verið sveigjanleg. Það er enginn lúxus á okkur en við gerum það sem þarf. Svo er spurning hvernig fer með viðurkenninguna á næsta ári þegar við förum að byggja og förum að taka lán," segir Hanna hlæjandi.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .