Undanfarið hefur verið unnið að uppstokkun á eignarhaldi rekstrarfélaga Dominos á Íslandi og í Danmörku. Að sögn Tryggva Jónssonar, stjórnarformanns Futura ehf., eignarhaldsfélags Dominos á Íslandi, var vilji til þess í eigendahópnum að aðskilja þarna á milli.

Sumir vildu eiga í starfseminni í Danmörku á meðan aðrir vildu fyrst og fremst eiga í starfseminni á Íslandi. Niðurstaðan var sú að nú mun Futura ehf. aðeins sjá um rekstur á Íslandi en Skandinavía Pizza Company A/S verður rekstraraðili sölustaða í Danmörku en auk þess hefur félagið umboð fyrir starfsemi í Svíþjóð.

Við breytinguna núna verður Futura ehf. alfarið í eigu Magnúsar Kristinssonar fjárfestis og Tryggva Jónssonar og Baugs ehf. Magnús á helmingshlut á móti Tryggva og Baugi. Áður en kom til uppstokkunarinnar átti Magnús 20% hlut en hann keypti hlut Birgis Þórs Bieltvelts sem var einn stofnenda félagsins. Birgir sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann hefði átt í félaginu síðan 1993 en þar sem hann byggi nú í Danmörku hefði hann viljað losna undan starfseminni á Íslandi. Á tímabili hefði hann átt fyrirtækið með öllu, en 2004 hefði hann selt nýjum fjárfestum hlut í félaginu vegna nýrra verkefna í Danmörku þar sem hann hefur búið síðan 1997.


Eignarhaldið í Danmörku verður með þeim hætti að Birgir, Tryggvi og Baugur eiga þriðjungshlut hver. Að sögn Birgis, sem situr í stjórn félagsins, hefur komið á daginn að heppilegast sé að stunda starfsemi í Danmörku með sérleyfisfyrirkomulagi (e. franchise) og sagði hann að farið yrði inn á þá braut í meira mæli í framtíðinni.

Í Danmörku eru nú átta sölustaðir og sagði Birgir að markaðurinn hefði verið þeim erfiður framan af á meðan þeir voru að átta sig á honum. Félagið á réttinn í Svíðþjóð en ekki hefur verið farið út í að opna þar.
Að sögn Tryggva hefur reksturinn á Íslandi gengið mjög vel og var velta félagsins hér um 1.300 milljónir króna á síðasta ári. Tryggvi hafði ekki á takteinunum veltuna í Danmörku en taldi að hún hefði ekki verið fjarri þessu.