Magnús Kristjánsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra hjá Orkusölunni ehf. Magnús tekur við starfinu af Helga Óskari Óskarssyni sem hefur verið starfandi framkvæmdastjóri frá því að Ólöf Nordal lét af störfum sem framkvæmdastjóri í maí 2007.

Magnús er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og stundar nú MBA nám við sama skóla. Magnús starfaði sem upplýsingatæknistjóri hjá RARIK á árunum 2003-2006. Hann hefur undanfarið ár starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá TM Software. Magnús er kvæntur Önnu Rún Frímannsdóttur dagskrárkynnir hjá RÚV og eiga þau tvö börn.

Við þessa breytingu tók Helgi Óskar Óskarsson sæti í stjórn Orkusölunnar en auk hans sitja í stjórninni Tryggvi Þór Haraldsson sem er stjórnarformaður og Lárus Blöndal hrl. Orkusalan er dótturfyrirtæki RARIK og hóf formlega starfsemi 1. febrúar 2007. Við stofnun Orkusölunnar hætti RARIK framleiðslu og sölu á rafmagni en sér eftir sem áður um dreifingu raforku á sínum svæðum. Virkjanir Orkusölunnar eru Rjúkandavirkjun, Skeiðsfossvirkjun, Grímsárvirkjun, Lagarfossvirkjun og Smyrlabjargaárvirkjun. Uppsett afl þeirra er 35,9 MW. Orkusalan er næst stærsti söluaðili á rafmagni á smásölumarkaði með rúmlega 30% markaðshlutdeild.