Magnús Oddsson ferðamálastjóri lætur af embætti í lok ársins eftir að hafa gegnt starfi ferðamálastjóra frá árinu 1993, að því er fram kemur í frétt Ferðamálastofu.

Í fréttinni er haft eftir Magnúsi að hann hafi velt því fyrir sér hvenær væri rétti tíminn til að hætta. „Núna fer það saman að mínu þriðja skipunartímabili lýkur í árslok og ég er að nálgast svokallaða 95 ára reglu ríkisstarfsmanna. Loks er stofnunin og embættið að færast til í stjórnkerfinu. Þegar ég fór yfir málið og þetta þrennt fór saman á svipuðum tíma þá tók ég þá ákvörðun að þetta væri ágætis tímapunktur til að sækja ekki um starfið að nýju nú þegar það er laust um áramót, þetta væri orðið gott. Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími að taka þátt í þróun og uppbyggingu atvinnugreinarinnar í þessi tæp 18 ár sem ég hef verið í stofnuninni. Ég skil við stofnun sem er með fjölda sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum ferðaþjónustunnar og vinnur mikið og gott starf fyrir þá sem þeir eiga að þjóna. Þetta starfsfólk hefur verið að fá fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, sem sýnir að verk þeirra eru metin að verðleikum,“ er haft eftir Magnúsi.