Magnús Þorsteinsson hefur falið lögmanni sínum að undirbúa stefnu á hendur fréttastofu Stöðvar 2 vegna fréttar stöðvarinnar frá því í gærkvöldi þar sem því var haldið fram að Magnús hefði flutt mikla fjármuni frá Íslandi í skattaskjól erlendis í aðdraganda bankahrunsins.

Í yfirlýsingu frá Magnúsi kemur fram að hann hafi aldrei átt fjármuni inni á reikningum í bankanum. Þá fer Magnús jafnframt fram á afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar Stöðvar 2.

Yfirlýsingin frá Magnúsi, sem hér er birt óbreytt í heild sinni, er svohljóðandi:

„Frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi, þar sem því var haldið fram að ég hafi flutt mikla fjármuni frá Íslandi til skattaskjóla, í gegnum fjárfestingabankann Straum, er helber ósannindi. Ég hef aldrei átt fjármuni inni á reikningum í bankanum og hafna alfarið þeim rógburði sem fréttastofa Stöðvar 2 setti fram um mig í gær.

Ég óska hér með eftir afsökunarbeiðni vegna þessarar umfjöllunar, frá fréttastofu Stöðvar 2 með jafn áberandi hætti og upphaflega fréttin, þegar hún var sögð. Verði Stöð 2 ekki við þessari sanngjörnu ósk minni, mun ég leita til dómstóla og leita þar réttar míns.

Margt hefur verið sagt ónákvæmt og ósatt um mína persónu sem hluta af hinum skilgreindu „auðmönnum.“ Flest hefur maður látið yfir sig ganga, en hér verð ég að draga línuna. Það má ekki reka íslenska fjölmiðla áfram á lygum, ekki frekar en aðrar stofnanir.

Ég hef falið lögmanni mínum að undirbúa stefnu á hendur fréttastofu Stöðvar 2, með þeim hætti sem réttarkerfið býður upp á.

Virðingarfyllst

Magnús Þorsteinsson.“