Málsástæður Gunnars Andersen, sem hann hafði uppi í andmælum sínum við fyrirhugaða uppsögn, vógu þungt í þeirri ákvörðun stjórnarinnar að víkja honum frá störfum, að sögn Aðalsteins Leifsson, formanns stjórnar FME. Hann segir rangt að óskað hafi verið hverju lögfræðiálitinu á fætur öðru þar til „rétt“ niðurstaða fékkst.

„Gunnar hefur ítrekað sagt við okkur að aðkoma hans að stofnun aflandsfélaganna og þáttur hans í því að greina FME ekki frá tilvist þeirra, hafi verið lögleg. Þetta kom síðast fram í andmælum hans í fyrradag. Þetta skiptir miklu máli, einkum í ljósi þess að fram hafa komið gögn sem sýna að tilgangurinn með stofnun félaganna var að fela eign bankans í sjálfum sér og hafa þar með áhrif á eiginfjárhlutfall hans. Hæstiréttur hefur sjálfur sagt að þessi félög hafi verið á vegum Landsbankans. Það er ómöguleg aðstaða þegar forstjóri FME uppfyllir ekki þau skilyrði sem gerð eru til eftirlitsskyldra aðila.“