Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Baldur hlaut tveggja ára dóm vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi í héraðsdómi Reykjavíkur í apríl árið 2011. Brotin fólust í því að hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september árið 2008 fyrir 192 milljónir króna. Um þremur vikum síðar hafði skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins tekið bankann yfir og voru þá hlutabréfin verðlaus.

Söluandvirði Landsbankabréfa Baldurs var gert upptækt í tengslum við málið á sínum tíma.

Auk þess að vera ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sat Baldur í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Lögmaður Baldurs sendi mál hans til Mannréttindadómstóls Evrópu vorið 2012.

Fréttastofa RÚV hefur eftir Karli Axelssyni, lögmanni Baldurs, að málinu sé hér með lokið.