Í tilefni þess að bókasafns- og upplýsingafræði hefur nú verið kennd á Íslandi í 50 ár kalla nemendur í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands til málþings í lok apríl, segir í fréttatilkynningunni.

Málþingið verður haldið þann 27. apríl næstkomandi, klukkan 12:30-16:30 í stofu 101 í Lögbergi.

Þar segir að á málþinginu munu nemendur kynna rannsóknarverkefni sín en þau eru eins ólík og þau eru mörg.

Erindin fjalla meðal annars um upplýsinga- og skjalastjórn í stofnunum og fyrirtækjum, rafræn gögn og stjórnun þeirra með tilliti til lagaumhverfis, upplýsingaþörf, - öflun og -hegðun ákveðinna hópa samfélagsins, þekkingarsamfélög, skipulagningu upplýsinga og samskipti og upplýsingamiðlun á rafrænum netum.

Á þessu málþingi fer jafnframt fram sýning á myndum úr náminu síðastliðin 35 ár en söfnun og skráning þessara mynda hefur nú staðið yfir í nokkurn tíma.